Pavel Ermolinski er íþróttamaður Vals 2022

Val á íþróttamanni Vals árið 2022 var kunngjört núna í hádeginu að viðstöddu margmenni í veislusölum félagsins að Hlíðarenda. Sú hefð að velja íþróttamann Vals hófst árið 1992 eða fyrir 30 árum með því að Halldór Einarsson gaf bikar og kom hefðinni á.

 

Val á íþróttamanni ársins fer fram með þeim hætti að 7 manna dómnefnd hittist, horfir yfir árið sem er að líða og skoðar frammistöðu þeirra íþróttamanna sem til greina koma. Horft er til margra þátta, sem eru vegnir og metnir og að lokum greidd atkvæði. Sá einstaklingur sem hlýtur flest atkvæði er svo útnefndur íþróttarmaður Vals.

 

Í dómnefndinni eru Halldór Einarsson, formaður aðalstjórnar félagsins, sem og tveir síðustu formenn aðalstjórnar auk formanna allra deilda. Aldrei áður í sögu nefndarinnar hefur valið staðið um jafn marga framúrskarandi íþróttamenn enda árangur félagsins stórbrotinn á árinu sem er að líða.

 

Fyrir valinu varð körfuknattleiksmaðurinn Pavel Ermolinski sem spilaði stórt hlutverk í Íslandsmeistaratitlinum sem Valur vann á síðustu leiktíð eins og alþjóð veit.

 

Pavel var að vonum kampakátur að lokinni afhendingu. "Kannski er ég að taka við verðlaunum fyrir ferilinn og fyrir söguna mína í Val, umfram það sem ég gerði endilega fyrir liðið í fyrra sem íþróttamaður". Sagði Pavel eftir að Lárus Sigurðsson formaður hafði veitt honum viðurkenninguna."Það er mikill sómi og virðing í því fyrir Val sem getur hugsað þannig, það eru einfaldlega ekki allir sem gera það og skilja. Ég áttaði mig á því um daginn að þetta er í síðasta skipti sem ég get fengið svona bikar sem íþróttamaður. Þetta skiptir mig verulegu máli og mikill sómi fyrir Val að leyfa mér hljóta þessa nafnbót".

 

Þá veittu deildirnar þrjár viðurkenningar fyrir sjálfboðaliða ársins 2022. Sjálfboðaliði knattspyrnudeildar var að þessu sinni Bragi G. Bragason, Helena Þórðardóttir hjá handknattleiksdeildinni og Brynja Kristinsdóttir hjá körfuknattleiksdeildinni.

 

Við óskum Pavel og öllum þeim sem fengu viðurkenningu hjartanlega til hamingju.