Valur er Íslandsmeistari í körfuknattleik kvenna 2023

Kvennalið Vals varð í kvöld Íslandsmeistari í körfuknattleik kvenna þegar liðið sigraði Keflavík í æsispennandi leik sem fram fór í Origo-höllinni að Hlíðarenda. 

Gestirnir höfðu yfirhöndina nær allan leikinn þó aldrei hafi munað miklu á liðunum. Valsstúlkur komust yfir í fyrsta skipti í leiknum með körfu frá Hildi Björgu Kjartansdóttur þegar 3 mínútur og 49 sekúnudur voru eftir af leiknum og við tók sannkölluð háspenna það sem eftir lifði leiks.

Keflvíkingar náðu aftur forystu þegar 35 sekúndur voru eftir af leiknum og í næstu sókn tókst Emblu Kristínardóttur að setja niður þýðingamikinn þrist og kom Val aftur í tveggja stiga forystu.

Valsstúlkur náðu frábærri vörn í næstu sókn Keflvíkinga þar sem Hildi tókst að verja skot Birnu Valgerðar Benonýsdóttur, Embla náði frákastinu og brunaði fram völlin þar sem brotið var á henni og hún send á vítalínuna.

Það var ljóst að Embla myndi tryggja Valskonum sigur ef hún myndi setja niður bæði skotin af enda einungis 6 sekúndur eftir af klukkunni. Embla gerði sér lítið fyrir og skoraði úr báðum skotunum og Íslandsmeistaratitillinn í höfn.

Þjálfari liðsins Ólafur Jónas Sigurðsson var að vonum kampakáttur í leikslok. "Tilfinning er bara sturluð, þetta er raun eitthvað annað og meira. Við erum búin að stefna á þetta í allan vetur. Við höfum verið með hausinn rétt skúfaðan á og þetta var alltaf loka markmiðið hjá okkur - ég er í raun í sæluvímu" sagði Ólafur í samtali við Stöð 2 sport. 

Við óskum stelpunum og öllum sem að liðinu standa hjartanlega til hamingju með frábæran árangur - Áfram Valur!

Mynd: VÍSIR/HULDA MARGRÉT