Monsi heim að Hlíðarenda

Það gleður okkur mikið að tilkynna það að Úlfar Páll Monsi Þórðarson er kominn heim að Hlíðarenda og hefur hann gert þriggja ára samning við Handknattleiksdeild Vals.

 

Þessi frábæri vinstri hornamaður hefur undanfarin ár getið sér gott orð með Aftureldingu í Olísdeildinni og varð bikarmeistari með Mosfellingum á þessu tímabili eftir sigur á Haukum en liðin mætast einmitt í undanúrslitum Íslandsmótsins.

 

Monsi er uppalinn Valsmaður og kemur úr hinum víðfræga 2000 árgangi þar sem margir aðrir skiluðu sér upp úr yngri flokka starfinu í meistaraflokk. Má þar nefna Tuma Stein Rúnarsson, Stiven Tobar Valencia, Tjörva Tý Gíslason og Arnór Snæ Óskarsson.

 

Monsi kemur til með að styrkja hópinn verulega og verður virkilega gaman að sjá hann í Valstreyjunni á nýjan leik. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn aftur að Hlíðarenda.

 

Áfram Hærra!