Valur Íslandsmeistari kvenna í handbolta 2023

Kvennalið Vals í handbolta varð í dag Íslandsmeistari í handbolta eftir 23-25 sigur á ÍBV í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu um titilinn sem fór fram í Vestmannaeyjum. 

Valsstúlkur fóru vel af stað í leiknum og náðu fljótlega þriggja marka forystu í fyrri hálfleik en Eyjakonur gáfust ekki upp og náðu að jafna metin í stöðuna 10-10. Valur fór þó með eins marks forystu inn í hálfleik og ljóst að um sannkallaðan naglbít væri að ræða. 

Valskonur létu forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik þrátt fyrir að ÍBV hafi fengið mörg tækifæri til að jafna leikinn, einkum og sér í lagi undir blálokin. 

Það var að vonum mikil gleði í leikslok, "Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn Íslandsmeistaratitilinn og þetta er bara rosalegt" sagði Mariam Eradze í viðtali við Stöð 2 sport.

Við óskum liðinu og öllum sem að því standa hjartanlega til hamingju með titlinn. 

Sjá fleiri myndir hér: facebook.com/valur.handbolti