Hafdís semur við Handknattleiksdeild Vals

Hafdís Renötudóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val og mun leika með liðinu út tímabilið 2025. Hafdís kemur til félagasins frá Fram en þar hefur hún leikið frá árinu 2019 að frátöldum tíma hjá Lugi árið 2020.

Hafdís er uppalin í Fram en lék einnig með Stjörnunni eitt tímabil áður en hún hélt út í atvinnumennsku og samdi við SønderjyskE. Eftir dvölina í Danmörku hélt Hafdís til Boden í Svíþjóð og lék þar í eitt ár áður en hún kom aftur til Íslands. Hafdís sem verður 26 ára á árinu hefur verið einn af bestu markvörðum deildarinnar undanfarin ár og hefur gífurlega mikla reynslu bæði úr deildinni hérna heima, atvinnumennsku og með landsliðinu.

Hafdís hefur leikið með A-landsliði Íslands frá árinu 2017 og leikið 44 landsleiki og skorað 2 mörk. Hafdís kemur til með að mynda sterkt markvarðateymi á næsta ári undir handleiðslu Hlyns Morthens markmannsþjálfara liðsins.

Við bjóðum Hafdísi hjartanlega velkomna í okkar félag!