Snorri Steinn nýr þjálfari A-landsliðsins

Snorri Steinn Guðjónsson hefur verið ráðinn þjálfari A-landsliðs karla og mun hann láta af störfum sem aðalþjálfari karlaliðs Vals af þeim sökum. Snorra Stein þarf ekki að kynna fyrir neinum hér að Hlíðarenda. Einn af dáðustu drengjum félagsins sem tók við Valsliðinu árið 2017 eftir fjórtán farsæl ár í atvinnumennskunni sem leikmaður í efstu deild í Þýskalandi, Danmörku og Frakklandi.

Frá því hann snéri heim í Val hefur Snorri verið gríðarlega farsæll í starfi og unnið samtals 9 titla, nú síðast Deildarmeistaratitilinn í Olísdeildinni. Þá vakti liðið og leikstíll þess verulega athygli hér heima og ekki síst ytra eftir frábært tímabil í Evrópudeildinni. Auk þess þjálfaði Snorri yngri flokka félagsins meðal annars 6. flokk kvenna á þessu tímabili. Hjá Val mun þó alltaf koma maður í manns stað og verður tilkynnt um nýjan aðalþjálfara meistaraflokks karla fljótlega.

Um leið og félagið vill þakka Snorra Steini fyrir vel unninn störf og eftirminnilega tíma þá óskum við honum velfarnaðar í nýju og spennandi starfi. Það verður gaman að fylgjast með okkar manni í brúnni á EM sem fer fram í Þýskalandi í byrjun næsta árs.

Áfram Ísland og áfram Valur!