Óskar Bjarni Óskarsson nýr aðalþjálfari meistaraflokks karla

Handknattleiksdeild Vals tilkynnir með stolti að Óskar Bjarni Óskarsson er nýr aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar Bjarni gerir langtíma samning við félagið og mun taka við góðu búi af Snorra Steini Guðjónssyni sem tekur nú við A-landsliði Íslands.

Þeir félagar hafa unnið náið og vel saman undanfarin ár eða frá því að Óskar steig til hliðar sem aðalþjálfari liðsins, þá Íslands og bikarmeistari eftir tímabilið 2016/17. Þótti Óskar sýna mikinn sóma með því að gefa Snorra Steini tækifæri á að koma heim úr atvinnumennsku og taka við liðinu á þeim tíma. Óskar Bjarni varð svo aftur hluti af meistaraflokks teyminu þegar hann tók að sér aðstoðarþjálfarastarfið árið 2019. Unnu þeir félagar allt sem hægt var að vinna á árunum sem eftir fylgdu, samtals 9 titla og leiddu liðið síðast til Deildarmeistaratitils í vor auk þess að bjóða upp á ógleymanlegar stundir í Evrópudeildinni sem verður lengi í minnum höfð.

Leit að nýjum þálfara hefur átt sinn aðdraganda og rýndi handknattleiksdeildin vel í þau nöfn og þá valmöguleika sem komu til greina að hennar mati. Óskar mun láta af störfum sem yfirþjálfari Vals en verður nýjum yfirþjálfara, sem tilkynntur verður til leiks síðar, til halds og trausts.

Óskar Bjarni er sannkallað óskabarn félagsins og það eru frábærar fréttir að hann hafi ákveðið að taka slaginn aftur sem aðalþjálfari liðsins. Hefur hann unnið ógrinni titla með félaginu sem leikmaður og þjálfari bæði í yngri flokkum sem og í meistaraflokkum Vals, karla og kvenna. Megi sú vegferð lengi lifa - Áfram hærra.

Áfram Valur!