Björgvin Páll ráðinn aðstoðarþjálfari

Björgvin Páll Gústavsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og mun verða nýráðnum aðalþjálfara liðsins, Óskari Bjarna Óskarssyni, innan handa á komandi tímabili. Björgvin gekk til liðs við Hlíðarendafélagið árið 2021 og var þá fenginn í þjálfarateymið ásamt því að verja mark liðsins. Þar verður engin breyting á og munum við halda áfram að sjá Bjögga trylla lýðinn með stórkostlegri markvörslu og sendingum fram völlinn.

Björgvin Páll, sem er 38 ára gamall, hefur leikið með nokkrum liðum hér heima ásamt því að eiga atvinnumannaferil að baki í Sviss, Þýskalandi og Danmörku. Þá hefur markvörðurinn og aðstðoðarþjálfarinn leikið yfir 250 landsleiki og verður fróðlegt að sjá hvort þeir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari munu leiða saman hesta sína á ný fyrir land og þjóð eftir farsælt samstarf að Hlíðarenda þar sem Björgvin vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil tímabilið 2021-22 undir stjórn Snorra og Óskars.

Handknattleiksdeild Vals óskar Bjögga til hamingju með nýtt hlutverk og hlakkar til að sjá þá Óskar Bjarna saman á hliðarlínunni og auðvitað í markinu á nýju tímabili.

Áfram hærra!

No photo description available.

No photo description available.