Kraftmiklar stelpur í sjöunda flokki kvenna
7. flokkur kvenna hjá Val hefur verið að æfa dyggilega þrisvar sinnum í viku í vetur og fjórum sinnum yfir sumartímann. Hópurinn telur um 45 stelpur sem hafa farið á fjölda móta, þar á meðal á Akranesi og í Njarðvík.
Stelpurnar æfa úti allan ársins hring sem hefur eflt þær til muna. Fimm þjálfarar hafa séð um hópinn en aðaláherslurnar eru á að kynna knattspyrnu frá mörgum hliðum auk þess sem að gaman þarf að vera í fyrirrúmi. Markmiðin fyrir þennan flokk er að læra knattspyrnureglurnar og uppstillingar, gera sem flestar æfingar með boltann við tærnar, hvetja til einspils jafnt og samspils en umfram allt að læra góð gildi og auka áhuga á íþróttinni.
Unnið hefur verið með félagsleg gildi sem eiga að skapa jákvæða liðsfélaga og samheldni. Liðið hefur brallað ýmislegt félagslegt saman undanfarið ár, má þar nefna sundferð, jólastund, fimleikatími, vinaæfingu, bangsaæfingu auk þess að heimsækja handboltahópinn á æfingar. Nú er hópurinn á leiðinni á Símamótið en að þessu sinni sendir 7. kvk sex lið á mótið.
Þessi flokkur, líkt og aðrir kvennaflokkar, eru í miklum vexti hjá Val, enda er hér gott tækifæri til að kynnast vinkonum úr hverfinu og fá smá útrás. Allar stelpur fæddar 2015-16 eru velkomnar að prófa æfingar hjá Val.