Áramótakveðja Vals

Árið 2023 er nú senn á enda og óhætt að segja að það hafi verið okkur Valsfóki afar ánægjulegt og skapað margar góðar minningar. Ógleymanlegt einvígi við Tindastól í karlakörfunni og bikarmeistaratitill er eitthvað sem kemur upp í hugann. Evrópuævintýrið og magnaðir leikir gegn mörgum af stærstu liðum Evrópu í karlahandboltanum og þó Víkingar hafi stungið snemma af í fótbolta karla þá vorum við lang næst bestir og óhætt að segja að bjart sé yfir komandi tímabili þar.

Við kláruðum einnig tímamótasamninga við Reykjavíkurborg sem styrkir okkur enn frekar sem félag til framtíðar og frábær vinna sem þar hefur verið unnin.

Og þrátt fyrir að ánægjulegustu fréttir hvers árs sé fjölgun iðkenda, sjálfboðaliða og allar skemmtilegu stundirnar sem við sköpum þá verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að það eru stelpurnar okkar sem hafa átt árið.

Það hefur kannski ekki farið nógu hátt í umræðunni, að okkar mati, að stelpurnar okkar halda á íslandsmeistaratitlum í þremur af stærstu boltagreinunum sem stundaðar eru hér á landi. Við eigum íslandsmeistara í handbolta, fótbolta og körfubolta ársins 2023.

Svona árangur er ekki eitthvað sem gerist af tilviljun heldur eigum við framúrskarandi lið þegar kemur að kvennaboltanum í öllum greinum. Og það er vegna þess að það skiptir okkur máli. Það skiptir okkur sem erum í Val máli að sami metnaður sé settur í karla- og kvennaboltann og við erum svo sannarlega stolt af okkar fólki.

Áramótakveðjunni frá Val í ár fylgir því þessi fallega ljósmynd sem tekin var í haust. Þarna má sjá Elísu Viðarsdóttir fyrirliða íslandsmeistara Vals í fótbolta, Guðbjörgu Sverrisdóttur fyrirliða íslandsmeistara Vals í körfubolta og Hildi Björnsdóttur fyrirliða íslandsmeistara Vals í handbolta.

Gleðilegt árið og vonandi verður árið 2024 jafn ánægjuríkt og gjöfult og árið sem við erum að kveðja - Áfram Valur!