Evrópubikarmeistarar Vals - Móttaka

Evrópumeistarar Vals 2024

Líkt og flest okkar vita sigruðu Valsmenn lið Olympiacos í seinni úrslitaleik Evrópubikarsins í handbolta í háspennuleik á laugardag. Það þurfti vítakastkeppni til þess að skera úr um úrslitin þar sem allir okkar drengir skoruðu úr sínum vítum en Grikkirnir klikkuðu á einu.

Þetta er auðvitað einstakt afrek í íþróttasögunni. Ekki bara okkar Valsmanna heldur þjóðarinnar allrar. Frábær árangur hjá frábæru liði sem hefur lagt gríðarlega á sig til þess að ná þessu háleita markmiði.

Eitt af einkennum liðsins hefur verið sterk liðsheild og sá vilji og trú að ætla sér að klára þetta háleita verkefni. Þessi hugsun fleytti þeim yfir síðustu hindrunina. Því ber að hrósa. Það eru ekki bara leikmenn og þjálfarar liðsins sem eiga hrós skilið heldur allt það fólk sem hefur komið að starfinu í handboltanum undanfarin ár.

Eftir að hafa fagnað titlinum vel í Aþenu um helgina er von á hópnum til landsins og ætlum við að taka vel á móti hetjunum.

Handboltastrákarnir okkar verða heiðursgestir á Oddaleik Vals og Grindavíkur sem fer fram miðvikudagskvöldið 29. maí að Hlíðarenda. Verða strákarnir hylltir fyrir leik og hvetjum við öll þau ykkar sem eiga miða til þess að taka vel á móti hetjunum.

Þá munu leikmenn liðsins mæta á uppskeruhátíð yngri flokka Vals sem fer fram mánudaginn 3. júní n.k. kl 17:00.

 

Fyrir áhugasama þá birtist greinagóð frètt um þetta ótrúlega Evrópuævintýri á vef mbl.is í gær: 

,,Val­ur skrifaði nýj­an kafla í ís­lenskri hand­bolta­sögu með því að tryggja sér Evr­ópu­bikar­meist­ara­titil karla í Aþenu á laug­ar­dag­inn var". mbl.is Smellið hér

 

Hvetjum við öll til að fylgja Valur Handbolti á samfélagsmiðlum þar sem finna má frekara myndefni og fréttir:

Valur Handbolti á Facebook

Valur Handbolti á Instagram 

 

Áfram Valur, áfram hærra.

 <3

Evrópumeistarar