Hafrún Kristjánsdóttir nýr formaður Vals – fyrsta konan frá stofnun félagsins

Á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Vals sem haldinn var 21. maí sl. var Hafrún Kristjánsdóttir kjörin formaður félagsins - fyrst kvenna frá stofnun Vals árið 1911. Hafrún, sem er 45 ára, prófessor og deildarforseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík, hefur verið virkur þátttakandi í stjórn félagsins um árabil. Hún sat í aðalstjórn Vals á árunum 2008-2016 og hefur verið í stjórn á ný frá árinu 2023. Hafrún var jafnframt varaformaður árin 2015-2016 og 2024.
Hafrún tekur við af Herði Gunnarssyni sem látið hefur af störfum eftir farsælt og óeigingjarnt starf. Hörður hefur verið formaður Vals síðustu tvö árin og gegnt embættinu í sjö ár alls. Valur vill þakka Herði innilega fyrir framlag hans í þágu félagsins - fyrir hans einlægu trú á gildi íþróttahreyfingarinnar, fyrir sterka forystu og ómetanlegan stuðning í gegnum krefjandi tímabil.
Hafrún Kristjánsdóttur formaður Vals:
"Það er mér mikill heiður að fá traustið til að leiða Val, fyrst kvenna - félag sem hefur gefið mér svo mikið síðan ég gekk inn í það tólf ára gömul. Valur hefur mótað mig sem manneskju og kennt mér gildi sem ég ber með mér í daglegu lífi. Ég tek við þessu hlutverki af auðmýkt og ábyrgðartilfinningu og mun leggja mig alla fram við að leiða félagið áfram með heildarhagsmuni þess að leiðarljósi. Ég hlakka til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar - saman ætlum við að efla Val enn frekar og styrkja stöðu félagsins sem burðarás í íslensku íþróttalífi."