Ágrip úr sögu Knattspyrnufélagsins Vals

Fyrstu árin

Árið 1911 var knattspyrnan enn á bernskuskeiði sem íþrótt á Íslandi. Knattspyrnan barst hingað laust fyrir aldamót, og eins og alls staðar hreif hún hugi ungra manna. Árið 1908 var stofnuð unglingadeild innan KFUM í Reykjavík og var séra Friðrik Friðriksson leiðtogi deildarinnar og naut óskoraðrar virðingar. Drengirnir sóttu ekki einungis fundi í KFUM hjá séra Friðriki, stofnað var taflfélag, hljómsveit var starfrækt og margt fleira.

Á þessum tíma fæddist hugmynd hjá KFUM drengjunum að stofna knattspyrnufélag en nokkur slík félög höfðu þá verið stofnuð í Reykjavík. Það var síðan 11. maí 1911 sem haldinn var fundur á lesstofu KFUM þar sem sex piltar stofnuðu Fótboltafélag KFUM en nafni félagsins var þegar sama ár breytt í Val. Sagan segir að þegar þessir stofnendur félagins voru að vinna við að laga knattspyrnuvöll sinn á Melunum í Reykjavík hafi fálki sveimað yfir höfðum þeirra og þar fengu þeir þá hugmynd að kalla félagð Val. Við vígslu fyrsta Valsvallarins á Melunum haustið 1911 hélt séra Friðrik ræðu þar sem hann hvatti piltana til að halda áfram á þeirri braut sem þeir höfðu lagt út á og áminnti þá jafnframt um heiðarleika í leik og starfi og að friður, kærleikur, samheldni, fegurð og atorka ætti að ríkja í starfinu og aldrei ætti að þrífast neitt ósæmilegt og ljótt. Árið 1915 tók Valur í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu en auk þeirra kepptu Fram og KR í mótinu. Árið 1916 var stofnuð yngri deild í félaginu er nefndist Væringjar fyrir drengi í KFUM fram til 15 ára aldurs sem gengju þá í Val. Árið 1919 vann þessi hópur ungra Valsmanna svokallað Haustmót og var það fyrsti mótssigur félagsins.

1920-1930

Á 15 ára afmæli félagsins árið 1926 var ákveðið að gera merki fyrir félagið og var þar um að ræða mynd af skildi og á honum var mynd af val, vængjum þöndum, með knött í klónum. Efst í grunni merkisins var sól sem sendi geisla sína, rauða og bláa yfir félagsmerkið. Á þessu ári var einnig ákveðið að taka upp nýjan búning, en allt frá því að Valur eigaðist fyrst félagsbúning hafði hann verið hvít peysa með bláum langröndum, hvítar buxur og bláir sokkar. Nú var ákveðið að búningur félagsins skyldi vera rauð peysa, hvítar buxur og bláir sokkar. Þetta hefur síðan verið búningur félagsins en ekki hefur verið föst regla í sokkalit, en þeir hafa þó yfirleitt verið rauðir eða hvítir.

Fyrstu titlarnir

Valur vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 1930, nítján árum eftir að félagið var stofnað. Langþráður draumur var orðinn að veruleika, en séra Friðrik sagði við nýbakaða meistarana að vissulega væri sigur góður en ekki mætti ofmetnast eða sýna dramblæti, en alla tíð var séra Friðrik með ýmis heilræði til Valsmanna, m.a. um drengilegan leik og háttprýði. Félagið varð næst Íslandsmeistari í knattspyrnu 1933 og síðan óslitið fjögur ár í röð 1935-1938, aftur 1940 og síðan aftur fjögur ár í röð frá 1942-1945.

Á þessum árum rofnuðu smám saman þau sterku tengsl sem í upphafi höfðu verið milli Vals og KFUM, en enn þann dag í dag eru Valsmenn minnugir uppruna félagsins og minnast með virðingu og hlýju tengsla sinna við KFUM og séra Friðrik Friðriksson. Brjóstmynd af séra Friðriki Friðrikssyni var reist að Hlíðarenda árið 1961. Á steinsúluna eru rituð þau fleygu orð: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði, einkunnarorð sem eiga að vera leiðarljós og takmark allra Valsmanna í leik og starfi. Friðrikskapella að Hlíðarenda var vígð árið 1993 þegar 125 ár voru liðin frá fæðingu séra Friðriks.

Flutningar að Öskjuhlíð

Þegar æfingavöllur Vals á Melunum var tekinn af félaginu 1926 undu félagsmenn því illa og unnu forystumenn félagsins ötullega að því að félaginu yrði bætt það tjón með nýju landi. Eftir langa mæðu fékk félagið loks úthutað svæði við rætur Öskjuhlíðar sem nefndist Haukaland. Svæðið var stórgrýtt og illt yfirferðar en með samtakamætti ruddu menn svæðið og athafnasvæði knattspyrnumanna í Val jókst smám saman og haustið 1935 útbjuggu Valsmenn völl á svæðinu í sjálfboðavinnu og var það mikið og erfitt verk. Þetta nýja svæði átti eftir að valda straumhvörfum hjá félaginu, ekki síst meðal yngstu knattspyrnumannanna, en um þessar mundir var farið að efna til keppni milli 3. og 4. flokks og var oftast keppt á Valssvæðinu að frumkvæði Vals. Átti það mikla unglingastarf sem kom í kjölfar hins nýja vallar eftir að bera ríkulegan ávöxt fyrir Val.

Árið 1939 markar merk spor í sögu Vals með kaupum á jörðinni Hlíðarenda við Öskjuhlíð. Langþráðu markmiði var þar með náð, Valur átti sitt eigið land í alfaraleið skammt frá gamla Valsvellinum og þar með lauk 28 ára hrakningasögu félagsins. Forystumenn félagsins höfðu háleitar hugsjónir um uppbyggingu að Hlíðarenda og horfðu til framtíðar, sáu fyrir sér draumsýnir um íþróttasvæði og íþróttamiðstöð en gerðu sér jafnframt grein fyrir því að langt yrði í land að draumur þeirra um framtíðarsvæði Vals rættist, en þeir höfðu tekið fyrsta skrefið. Nýr malarvöllur var vígður 1949 og 1953 var grasvöllur tekinn í notkun að Hlíðarenda.

Straumhvörf urðu í starfi félagsins með tikomu íþróttahúss að Hlíðarenda sem tekið var í notkun 1958 en húsið var fullgert 1960. Þetta íþróttahús var mikil lyftistöng fyrir Val, bæði fyrir íþróttaiðkun og allt félagsstarf. Árið 1971 var hafist handa við undirbúning að nýjum grasvelli í fullri stærð og bættum aðbúnaði áhorfenda. Valur varð fyrsta Reykjavíkurfélagið til þess að ná því marki að leika heimaleiki á eigin grasvelli en hann var vígður 1981. Á 9. áratugnum héldu framkvæmdir áfam og1987 var tekið í notkun annað íþróttahús ásamt vallarhúsi og félagsheimili.

Fleiri íþróttagreinar

Allt frá stofnun Vals höfðu íþróttaiðkanir Valsmanna fyrst og fremst tengst knattspyrnunni. Á bernskuárum félagsins voru gönguferðir og hjólreiðar einnig veigamikill þáttur í félagsstarfinu en þær tengdust oftast á einn eða annan hátt knattspyrnunni og æfingum. En í kringum 1940 fara nýjar íþróttagreinar að nema land hjá félaginu. Fyrst handknattleikur, en hann hafði raunar verið liður í þjálfun knattspyrnumanna félagsins um árabil. Árið 1940 var efnt til fyrsta Íslandsmóts í handknattleik sem Valsmenn unnu og allt síðan hefur handknattleikur verið mjög vinsæl íþróttagrein hjá Val og meðal landsmanna. Valsmenn vörðu Íslandsmeistaratitilinn 1941 og 1942 og aftur 1944. Valsmenn hafa ávallt átt velgengni að fagna í handknattleik þegar á heildina er litið þótt stundum hafi starfið dalað um tíma.

Kvenmönnum veittur aðgangur

Á fyrstu árum félagsins á meðan tengslin voru hvað mest við KFUM áttu eðli málsins samkvæmt einungis piltar aðild að Val. Á fyrstu starfsáratugum Vals var einnig lítið um að stúlkur stunduðu íþróttir, slíkt þótti jafnvel ekki kvenlegt. Helst var að stúlkur stunduðu fimleika eða sund, knattleikir þóttu ekki við þeirra hæfi. Tíðarandinn breyttist mjög á stríðsárunum og að því kom að kvennadeild var stofnuð í Val og var handknattleiksdeild kvenna stofnuð hjá félaginu 1948.

Æ síðan hafa kvennaflokkar í knattspyrnu og handknattleik staðið fyrir sínu, ekki aðeins á íþróttavöllunum, heldur einnig í hinu félagslega starfi og sú ákvörðun að veita konum aðgang að félaginu varð til þess að styrkja Val mikið félagslega. Það var ekki fyrr en eftir stofnun kvennadeilda sem hægt var að tala um Val sem alhliða íþrótta- og æskulýðsfélag. Það var fyrst árið 1962 sem þær hrepptu Íslandsmeistaratitilinn og um langan tíma var kvennalið Vals ósigarandi í handknattleik.

Á 8. áratugnum náði kvennaknattspyrna að skjóta rótum hjá Val og félagið hampaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í kvennaknattspyrnu árið 1978. Á 9. áratugnum átti Valur sigursælasta lið landsins í kvennaknattspyrnu. Barna- og unglingastarf hefur lengi verið öflugt í kvennaknattspyrnu sem skilað hefur bæði í fjölda iðkenda sem koma víðs vegar að af höfuðborgarsvæðinu og árangur hefur einnig yfirleitt verið góður.

Deildaskipting

Árið 1959 var gerð veigamikil skipulagsbreyting hjá félaginu er tekin var upp deildaskipting. Ákveðið var að skipta Val í þrjár deildir: Handknattleiksdeild, knattspyrnudeild og skíðadeild og kjósa sérstakar stjórnir þessara deilda. Áttu deildirnar að starfa nokkuð sjálfstætt og taka ákvarðanir um eigin mál en aðalstjórn félagsins átti að fara með æðsta vald í félaginu milli aðalfunda.

Á 7. áratugnum var stofnuð badmintondeild hjá Val en deildin náði aldrei að eflast verulega. Einnig átti skíðaíþróttin erfitt uppdráttar hjá félaginu, fyrst og fremst vegna þess að önnur íþróttafélög buðu upp á betri aðstöðu, en félagið átti þó stóran skíðaskála sem reistur var 1943 í Sleggjubeinsdal og var mikið notaður í félagsstarfinu. Árið 1970 var síðan 5. íþróttadeildin stofnuð hjá Val, körfuknattleiksdeild og gerðist það með þeim hætti að Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur KFR sem verið hafði starfandi frá 1951 óskaði eftir stofnun körfuknattleiksdeildar hjá Val og þar með inngöngu í félagið. Á ýmsu gekk hjá deildinni fyrstu árin en fljótlega fór starfið að eflast og árið 1980 kom að því að félagið hlaut sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í körfuknattleik.

Sprengja í iðkun

Gífurleg breyting varð á öllu íþróttalífi Íslendinga á áttunda áratugnum og segja má að íþróttavakning hafi átt sér stað. Valur fór ekki varhluta af þessari íþróttavakningu. Mjög mikil sókn var á öllum vígstöðvum hjá félaginu, enda vel í stakk búið til þess að taka á móti fjölda fólks og búa unglingum æskilega aðstöðu til æfinga og leikja. Allt frá stofnun félagsins árið 1911 hafði Valur verið stórt nafn í íslenskum íþróttaheimi en sennilega hefur stjarna félagsins aldrei risið eins hátt og á áttunda átatugnum. Valur varð þá að stórveldi í nær öllum íþróttagreinum sem stundaðar voru innan félagsins, bæði í meistaraflokkum og yngri flokkum. Ungilngastarfið hjá félaginu tók stökk fram á við og öll skipulagning félagsstarfsins þótti til mikillar fyrirmyndar. Barna- og unglingastarf hjá Val hefur í gegnum tíðina verið mjög öflugt og hefur þetta öfluga starf orðið til þess að Valur hefur lengst af tvímælalaust verið eitt sterkasta íþróttafélag á Íslandi og markið hefur ávallt verið sett hátt.

Af félagsins hálfu hefur jafnan verið lögð áhersla á að fá hæft fólk til þess að leiðbeina hinum ungu og er ekki síður mikilvægt að búa börnum og unglingum góða aðstöðu. Árangur unglingaliða félagsins sýnir hversu starfið hefur verið öflugt en ótaldir eru þeir Íslandsmeistaratitlar og aðrir titlar sem ungt Valsfólk af báðum kynjum hefur fært félagi sínu á undanförnum áratugum og það sem er einkar ánægjulegt fyrir félagið er að flest það fólk sem skarað hefur fram úr í íþróttum hjá Val hefur alist upp hjá félaginu og hefur það verið einkennandi fyrir starfið.

Segja má að skipulag unglingastarfsins hafi í stórum dráttum haldist hið sama í áratugi. Aldursflokkaskipting hefur þó verið mismunandi. Lengi vel höfðu þeir yngstu fá verkefni við sitt hæfi, aðeins var keppt í 2. og 3. flokki, síðar bættust 4. -6. flokkur við og á síðustu árum 7. flokkur hjá piltum og 6. flokkur hjá stúlkum. Þegar árið 1938 var stofnað til unglingaleiðtogaembættis innan aðalstjórnar félagsins sem sýnir hversu félagið hefur snemma látið sig unglingastarfið sérstaklega varða enda var félagið upphaflega stofnað sem unglingafélag í tengslum við æskulýðsstarf KFUM. Síðar tóku við unglinganefndir sem önnuðust skipulag unglingamálanna en mesta breytingin varða árið 1959 er deildarskiptingin var tekin upp og hverri deild fyrir sig var valin ákveðin stjórn.

Valur í forystuhlutverki

Valur er eitt sigursælasta íþróttafélag landsins og það sigursælasta þegar tekið er tillit til Íslands- og bikarmestaratitla í meistaraflokki karla og kvenna í þremur vinsælustu íþróttagreinunum, handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu. Á undanförnum áratugum hefur félagið einbeitt sér að starfi í þessum þremur íþróttagreinum með öflugu starfi í þremur deildum. Valur er félag með ríka hefð fyrir aga, sigurvilja, dugnaði og heilbrigði. Að Hlíðarenda vinna allir að sama marki, þ.e. að halda merki Vals hátt á lofti um ókomna framtíð með einkunnarorð séra Friðriks Friðrikssonar að leiðarljósi: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði. Að Hlíðarenda er nú góð aðstaða til íþróttaiðkunar og afþreyingar sem enn á eftir að batna á næstu árum með byggingu nýrra íþróttamannvirkja í samræmi við samning Vals við Reykjavíkurborg. Þegar þeim framkvæmdum verður lokið verður aðstaðan hin glæsilegasta.

Að Hlíðarenda á öllum að líða vel hvort sem um er að ræða iðkendur, foreldra, stjórnarmenn, þjálfara, stuðningsmenn eða gesti félagsins. Heilbrigð íþróttaiðkun er góð leið til árangurs í lífinu. Markmiðið er ekki eingöngu að ala upp metnaðargjarna og vel agaða íþróttamenn, heldur fyrst og síðast sterka einstaklinga. Agi og ánægja eru lykilorð í velgengni og andrúmsloftið að Hlíðarenda á að vera með þeim hætti að menn vilji leggja sig alla fram til að ná áragngri. Þar eru allir jafnir og borin er virðing fyrir samherjum jafnt sem mótherjum. Iðkendur bera virðingu fyrir Valsbúningnum og merki félagsins og eru þess meðvitaðir að þeir eru fulltrúar félagsins hvar og hvenær sem er. Það á að vera eftirsóknarvert að vera Valsmaður.