SAMÞYKKTIR KNATTSPYRNUFÉLAGSINS VALS

 

1. grein - Heiti

Félagið heitir Knattspyrnufélagið VALUR. Aðsetur þess er að Hlíðarenda í Reykjavík.

 

2. grein - Markmið

Markmið félagsins er að iðka og útbreiða knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik karla og kvenna.

 

Félagið er almennt félag og er því heimilt að vera eigandi í hlutafélögum, standa að stofnun sjálfseignarstofnana o.s.frv.

 

3. grein - Merki og búningar

Merki félagsins er skjöldur, en grunnur hans sól, sem sendir frá sér rauða og bláa geisla og í miðjum fleti skjaldarins er fljúgandi valur með knött í klónum. Á knöttinn skal letra nafnið VALUR. Búningur félagsins er rauð treyja, hvítar buxur og rauðir sokkar.

 

4. grein - Aðild að heildarsamtökum

Félagið er deild í K.F.U.M. og aðili að Í.S.Í. og sérsamböndum þess, eftir því sem við á hverju sinni.

 

5. grein - Félagar, félagaskrá og félagsgjöld

Félagi getur hver sá orðið sem óskar þess og samþykkir að taka á sig þær skyldur er því fylgja. Sérhverjum félagsmanni ber að greiða félagsgjald til félagsins. Aðalstjórn ákveður félagsgjald árlega. Greiði félagsmaður ekki félagsgjald sitt næstliðið ár fyrirgerir hann réttindum sínum skv. 11. gr. samþykkta þessara.

Framkvæmdastjóri skal halda félagaskrá á tölvutæku formi.

Aðalstjórn getur kjörið heiðursfélaga úr röðum félagsmanna. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda.

 

6. grein - Skipulag félagsins

Aðalfundir og aukaaðalfundir eru æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalstjórn er æðsti aðili í málefnum þess milli aðalfunda. Aðalstjórn ræður framkvæmdastjóra sem ræður annað starfsfólk.

Starfsemi félagsins er skipt í þrjú meginsvið: Barna- og unglingasvið, afrekssvið og rekstarsvið.

Félagsdeildir með sérstakar stjórnir starfa innan afrekssviðs og sinna afreksstarfi í knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik. Sérstök deildarstjórn starfar einnig innan barna- og unglingasviðs. Deildarstjórnir starfa í umboði og á ábyrgð aðalstjórnar sbr. 16. gr.

 

7. grein - Um Hlíðarenda SES.

Þann 9. janúar 2013 stofnaði Knattspyrnufélagið Valur sjálfseignarstofnunina Hlíðarenda.

Tilgangur Hlíðarenda ses er að stuðla að framgangi og að vera fjárhagslegur bakhjarl Knattspyrnufélagsins Vals.

Markmið stofnunarinnar er að halda utan um, byggja upp, varðveita og viðhalda þeim eignum og réttindum er stofnunni tilheyra í þágu vaxtar og viðgangs Knattspyrnufélagsins Vals, en í þeim tilgangi ráðstafaði Knattspyrnufélagið Valur til stofnunarinnar hluta af eignasafni sínu.

Stofnunin skal í störfum sínum og gerðum hafa markmið Knattspyrnufélagsins Vals að leiðarljósi og stuðla að því að efla iðkun og útbreiðslu þeirra íþrótta sem stundaðar eru af hálfu karla og kvenna innan vébanda Knattspyrnufélagsins Vals á hverjum tíma.

Hvers konar ráðstöfun eigna sem ekki samrýmist framangreindum tilgangi og markmiðum er stofnuninni óheimil.

Ákvæðum í skipulagsskrá Hlíðaernda SES um tilgang og markmið sjálfseignarstofnunarinnar (nú 3. gr.) og um fasta setu formanns Vals í stjórn Hlíðarenda ses (6.gr.) verður ekki breytt samkvæmt skipulagsskránni nema að fengnu samþykki aðalfundar Vals, sbr. 8. og 9. gr. samþykkta þessara. Þá verður og starfsreglum fjárhagsráðs sem starfar á grundvelli skipulagsskrár Hlíðarenda SES ekki breytt nema á grundvelli samþykkis stjórna Vals og Hlíðarenda ses.

 

8. grein - Aðalfundir félagsins, fundartími, framboð til stjórna, boðun og breytingar á samþykktum

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Skal hann haldinn eigi síðar en 31. maí ár hvert. Auglýsa skal aðalfundinn opinberlega með viku fyrirvara. Aðalfundurinn telst lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á samþykktum félagsins, sem síðar koma fram ef 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.

Framboð til setu í aðalstjórn og félagsdeildum þurfa að berast með skriflegum/rafrænum hætti til aðalstjórnar eigi síðar en tveimur virkum dögum fyrir aðalfund.

 

9. grein - Dagskrá aðalfundar

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Formaður félagsins setur fundinn.

2. Kosinn fundarstjóri.

3. Kosinn fundarritari.

4. Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar.

5. Formaður félagsins leggur fram skýrslu aðalstjórnar um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.

6. Framkvæmdastjóri félagsins leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga félagsins fyrir liðið starfsár til samþykktar.

7. Framkvæmdastjóri félagsins leggur fram rekstraráætlun næsta starfsárs.

8. Breytingar á samþykktum sbr. 8., 10. og 22. gr.

9. Kosinn formaður.

10. Kosnir átta stjórnarmenn en þrír þeirra skulu jafnframt vera kosnir formenn deildarstjórnar barna- og unglingasviðs, handknattleiksdeildar og körfuknattleiksdeildar.

11. Kosnir þrír til sex stjórnarmenn í stjórn hverrar deildar fyrir utan knattspyrnudeild. Heimilt er einnig að kjósa allt að 5 varastjórnarmenn fyrir hverja deild fyrir utan knattspyrnudeild.

12. Kosinn löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarfélag og einnig 2 félagslegir skoðunarmenn.

13. Önnur mál.

 

10. grein - Atkvæðagreiðslur á aðalfundi félagsins

Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema þegar um er að ræða tillögur til breytinga á samþykktum félagsins, en þær verða að samþykkjast af 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna. Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað. Séu atkvæði jöfn skal kosning endurtekin. Verði atkvæði þá enn jöfn skal hlutkesti ráða.

 

11. grein - Kjörgengi, atkvæðisréttur og tillöguréttur á aðalfundi félagsins.

Allir skuldlausir félagsmenn 16 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarstarfa, atkvæðisrétt, tillögurétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins.

 

12. grein - Haustfundur félagsins vegna kosningar í deildarstjórn knattspyrnudeildar

Halda skal haustaðalfund félagsins milli 15. október og 30. nóvember ár hvert. Dagskrá haustfundar skal vera sem hér segir:

1. Formaður félagsins setur fundinn.

2. Kosinn fundarstjóri.

3. Kosinn fundarritari.

4. Kosinn formaður deildarstjórnar knattspyrnudeildar sem jafnframt tekur sæti í aðalstjórn.

5. Kosnir þrír til sex stjórnarmenn í deildarstjórn knattspyrnudeildar. Heimilt er einnig að kjósa allt að 5 varastjórnarmenn.

6. Önnur mál.

 

13. grein - Aukaaðalfundur félagsins

Aukaaðalfund félagsins má halda ef aðalstjórn álítur þess þörf eða ef þess er óskað skriflega af a.m.k. 10% kjörgengra félagsmanna.

Aukaaðalfundur er lögmætur sé til hans boðað skv. ákvæðum 8 gr. samþykktanna.

14. grein - Reikningsár

Reikningsár er frá og með 1. janúar til og með 31. desember ár hvert.

 

15. grein - Verkefni aðalstjórnar

Aðalstjórn ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess milli aðalfunda. Aðalstjórn skipar alla trúnaðarmenn félagsins í nefndir og ráð innan íþrótta-hreyfingarinnar, sem félagið á aðild að. Aðalstjórn skipar fulltrúa í sérráð Í.B.R. á aðalfundi sérráða Í.B.R. og á ársþing sérsambanda Í.S.Í. að fenginni umsögn stjórna einstakra deilda.

Aðalstjórn kemur fram út á við fyrir hönd félagsins og ritar nafn þess. Þá veitir aðalstjórn framkvæmdastjóra prókúruumboð.

Halda skal fundagerðir um stjórnarfundi og þær ákvarðanir sem þar eru teknar.

 

16. grein - Skipan aðalstjórnar.

Aðalstjórn skipa tíu menn, formaður félagsins sem kosinn er á aðalfundi og níumeðstjórnendur kjörnir á aðalfundi og haustfundi, sem skipta með sér verkum þannig: varaformaður, fjórir meðstjórnendur auk formanna deildarstjórna barna- og unglingasviðs, knattspyrnudeildar, handknattleiksdeildar og körfuknattleiksdeildar.

Formaður boðar fundi í stjórn þegar hann telur þess þörf, eða ef einn stjórnarmaður óskarþess. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála. Stjórnarfundir eru löglegir ef meirihluti stjórnar er mættur.

 

17. grein - Um starfssvið framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri er ráðinn af aðalstjórn og starfar í umboði hennar.

Framkvæmdastjóri ræður allt annað starfsfólk. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem aðalstjórn hefur gefið. Hann hefur umsjón með gerð rekstraráætlana fyrir félagið og ber ábyrgð á framkvæmd þeirra. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá aðalstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana aðalstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal aðalstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Aðalstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

 

18. grein - Starfssvið félagsdeilda í barna- og unglingasviði, knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik.

Hver félagsdeild skal hafa sérstaka stjórn sem kjörinn er á aðalfundi félagsins, sbr. 8. gr. Starfsár félagsdeildar er það sama og aðalstjórnar. Hver félagsdeild skal hafa aðskilin fjárhag í aðalbókhaldi félagsins.

Formaður viðkomandi félagsdeildar boðar til stjórnarfunda deildar eftir því sem þörf krefur. Framkvæmdastjóri vinnur með deildarstjórnum og situr á fundum þeirra, sé tilefni til. Skal hann vera með málfrelsi og tillögurétt á deildarstjórnarfundum. Verkefni félagsdeildar á afrekssviði er að stýra afreksstarfi viðkomandi íþróttagreinar, stuðla að framgangi hennar, skipulagi og kynningu út á við.

Verkefni félagsdeildar barna- og unglingasviðs er að stýra barna- og unglingastarfi í öllum íþróttagreinum félagsins, stuðla að framgangi þeirra, skipulagningu og kynningu út á við. Þá skulu stjórnir einstakra félagsdeilda standa að fjáröflun til styrkingar starfi og rekstri viðkomandi deildar.

Stjórnir deilda starfa í umboði og á ábyrgð aðalstjórnar. Stjórnum deilda er óheimilt að skuldbinda félagið fjárhagslega.

Í lok hvers starfsárs skal hver deildarstjórn skila til aðalstjórnar starfsskýrslu fyrir liðið ár og áætlun um fjárþörf fyrir næsta starfsár. Starfsskýrslur skulu birtar í sameiginlegri skýrslu félagsins á aðalfundi.

 

19. grein - Fulltrúaráð.

Fulltrúaráð skal vera starfandi innan félagsins samkvæmt sérstökum reglum sem samþykktar eru á aðalfundi félagsins.

 

20. grein - Viðurkenning, heiðursmerki.

Aðalstjórn veitir viðurkenningu fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar samkvæmt sérstökum reglum sem samþykktar eru á aðalfundi félagsins. Þá kýs aðalstjórn heiðursfélaga.

 

21. grein - Veðsetninga- og framsalsbann.

Val verður, svo sem verið hefur, óheimilt að framselja eða veðsetja fasteignir í eigu félagsins. Það á þó ekki við um framsal eigna til Hlíðarenda ses sem gert yrði á grundvelli samþykkta Vals og skipulagsskrár Hlíðarenda ses.

 

22. grein - Félagsslit.

Verði félagið í heild óstarfhæft í 5 ár samfleytt, skal því slitið. Við félagsslitin skulu eignir þess renna til K.F.U.M. í Reykjavík, sem skal ráðstafa þeim til íþrótta- og eða æskulýðsstarfa innan vébanda sinna. Ekki má breyta 1. og 22. grein samþykkta félagsins.

 

23. grein - Viðurlög.

Hafi meðlimur félagsins brotið samþykktir þess með framkomu sinni, hnekkt áliti félagsins og markmiði verulega, skal honum hegnt með brottrekstri úr félaginu samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar. Úrskurður hennar er því aðeins gildur að 4/5 aðalstjórnar sé honum samþykkir. Skylt er aðalstjórn að boða hinn brotlega á sinn fund og gefa honum kost á að tala máli sínu. Ákvörðun aðalstjórnar skv. þessari grein verður borinn undir aðalfund félagsins.

 

24. grein - Breytingar á samþykktum.

Samþykktum þessum mál ekki breyta nema á aðalfundi félagsins og þarf til þess samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna, sbr. 8. og 10. gr.

Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 7 dögum fyrir aðalfund félagsins.

Um aðkomu félagsins að breytingum á Skipulagsskrá Hlíðarenda SES, sbr. 7. gr., fer að öllu leyti eftir samþykktum þessum um breytingar á þeim, að breyttu breytanda.

 

25. grein - Gildistaka

Samþykktir þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi eldri samþykktir félagsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Vals. 27. apríl 2023